Þann 22. október hélt Rafal haustráðstefnu undir yfirskriftinni Snjallari innviðir – Hvernig umbreytir tæknin rekstri orkuinnviða?
Ráðstefnan sameinaði sérfræðinga úr orku-, verkfræði- og tæknigeiranum í opnu samtali um framtíð innviða og hvernig við getum nýtt gögn, tækni og samvinnu til að byggja sterkara og sjálfbærara samfélag.
„Framtíðin verður ekki til af sjálfu sér, hún verður til í samtölum eins og þessu“

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, stjórnarformaður Rafal, opnaði ráðstefnuna með innblásnu ávarpi þar sem hún hvatti til jákvæðrar nálgunar á breytingar og tæknibyltingar. Hún minnti á að þó að hraðinn í umbreytingunni sé mikill, hafi mannkynið í gegnum tíðina alltaf sýnt hæfni til að aðlagast og skapa ný tækifæri.
„Þetta snýst ekki um að tæknin leysi okkur af hólmi, heldur að hún leysi okkur úr viðjum endurtekningar svo við getum gert það sem engin vél getur gert, að hugsa, skapa og tengjast,“ sagði Ingibjörg.
Hún hvatti einnig til opins samtals milli fyrirtækja og stofnana um leiðir til að takast á við sameiginlegar áskoranir.
„Við erum öll að takast á við sömu verkefni, þess vegna er samtal eins og þetta svo mikilvægt.“
Ávarp orkumálaráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fjallaði í ávarpi sínu um mikilvægi seiglu, samvinnu og stafrænnar nýsköpunar í uppbyggingu orkuinnviða framtíðarinnar. Hann lagði áherslu á að samspil tækni, sjálfbærni og ábyrgðar væri lykilforsenda þess að tryggja örugga og græna orkuframtíð fyrir íslenskt samfélag.
„Við stöndum á tímamótum þar sem stafræn umbreyting og orkuumbreyting ganga hönd í hönd. Með öflugri nýsköpun, gagnadrifnum lausnum og samvinnu getum við tryggt að orkuinnviðir Íslands verði bæði sjálfbærir og traustir,“ sagði Jóhann Páll.
Strong networks and resilent systems – Tiia Niemi, Pori Energia

Tiia Niemi, Service Production Manager hjá Pori Energia í Finnlandi, fjallaði um hvernig seigla, gögn og samvinna eru lykillinn að sjálfbærum orkukerfum framtíðarinnar. Hún lýsti því hvernig fyrirtækið hefur umbreytt hefðbundnum rekstri með stafrænum lausnum sem bæta bæði öryggi og hagkvæmni.
„Við þurfum ekki bara að byggja snjallara kerfi, við þurfum að byggja traustari samfélög,“ sagði Tiia og lagði áherslu á að tækni skipti aðeins máli þegar hún styrkir tengsl milli fólks og innviða.
Snjallari innviðir í framkvæmd – Aron Ingi Sverrisson, Veitur

Aron Ingi Sverrisson, sérfræðingur landupplýsingakerfa hjá Veitum, kynnti hvernig LoRaWAN-tækni hefur gjörbreytt vöktun vatnsþrýstings á Nesjavöllum og víðar á höfuðborgarsvæðinu. Þar senda mælar gögn á tíu mínútna fresti, sem gerir kleift að greina frávik og bregðast við áður en vandamál verða sýnileg.
„Þegar við tengjum mælitækin, þá tengjum við líka fólkið. Við sjáum betur, bregðumst hraðar við og nýtum auðlindir á skynsamari hátt,“ sagði Aron.
What if your infrastructure could talk? – Valentin Keller, akenza.io

Valentin Keller, IoT Soulutions Engineer hjá akenza.io, fjallaði um hvernig tenging gervigreindar og IoT er að umbreyta því hvernig við skiljum orku- og þjónustuinnviði. Hann hvatti gesti til að sjá gögn sem samtal, ekki aðeins mælingar.
„Flest okkar sitja á stafla af LEGO-kubbum, óteljandi gagnapunktum og kerfum, en án skipulags byggjum við bara tilviljanakennda turna“ sagði hann og bætti við: „Áður en þú biður gervigreindina um að hugsa, þá þarftu að kenna gögnunum að haga sér“.
Snjallari innviðir í orkugeiranum – Pallborðsumræður






Ráðstefnunni lauk á lifandi pallborðsumræðum sem Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, stýrði. Í pallborðinu tóku þátt fulltrúar úr ólíkum áttum orkugeirans: Tiia Niemi, Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá HS Orku, Nína Lea Z. Jónsdóttir, sérfræðingur í stafrænum kerfum hjá Landsneti og Valentin Keller.
Saman ræddu þau hvernig gögn, gervigreind og nýjar tæknilausnir geta hjálpað til við að byggja upp seiglu og sjálfbærni í orkuinnviðum framtíðarinnar.
Samhljómur var um að stafrænar umbreytingar snúist ekki aðeins um nýja tækni, heldur um fólk, samstarf og menningu sem styður breytingar.
„Við erum öll á sömu vegferð, að læra af gögnunum okkar, nýta þau betur og vinna saman að lausnum sem skipta raunverulegu máli,“ sagði Sunna Björg.
Í umræðunum kom meðal annars fram að mesta tækifærið liggi í því að brjóta niður múra milli orku- og tækniheima, auka samvinnu og deila reynslu milli fyrirtækja og á milli landa. Þátttakendur voru sammála um að framtíðin verði ekki mótuð af einum aðila, heldur í samtali, þar sem gögn, hugvit og mannleg tengsl mynda grunninn að snjöllum og sjálfbærum innviðum.
Við hjá Rafal þökkum öllum ræðumönnum, samstarfsaðilum og gestum kærlega fyrir þáttökuna.
Saman mótum við framtíð snjallari innviða.
Hægt er að fletta í gegnum myndir frá viðburðinum hér fyrir neðan




































































































































































































