Glæsileg viðurkenning

 

 

Laugardaginn 9. febrúar veitti Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur nýsveinum viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi. Athöfnin var glæsileg og félaginu til mikils sóma. Forseti Ísland, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra og Þórdís Lóa Þorhallsdóttir, formaður Borgarráðs, fluttu ávörp. Sérstaklega gaman var að heyra samhljóminn þeirra á milli um mikilvægi iðnmenntunar og fjölbreytileikann sem er í boði fyrir þá sem hyggja á iðnnám. Við hjá Rafal erum líka spenntir fyrir frumvarpi sem lagt hefur verið fram um að sveinspróf í iðnámi verði jafngilt stúdentsprófi varðandi inngöngu í háskóla. Það segir sig sjálft hvað það opnar margar dyr.

Þessi dagur var sérlega gleðilegur fyrir okkur í Rafal því að starfsmaður okkar, Elvar Örn Hannesson, var heiðraður fyrir afburða gott sveinspróf sitt. Elvar hóf störf hjá okkur vorið 2015 og hefur alla tíð sýnt sérstaka samviskusemi og dugnað í sínum störfum. Hann hefur fengið hrós hvar sem hann hefur stundað sína iðn og verið fyrirtækinu til mikils sóma. Háskólinn í Reykjavík veitti honum svo veglegan styrk til náms sem við vonum að hann nýti sér.

Kristjón Sigurðsson er meistari Elvars og fékk hann sérstaka viðurkenningu líka. Við hjá Rafal höfum að þessu tilefni verið að grúska í gömlum skjölum og skv. bókum okkar hafa nú 40 nemar hans lokið sveinsprófi í rafiðnum og þá er ótalinn töluverður hópur sem hefur fengið starfsþjálfun hér. Nú hefur Bjarni Sæmundsson tekið við löggildingum félagsins og eru nú þegar nokkrir nemar á hans vegum.

Rafal er með öfluga starfsmannastefnu og styður sína starfsmenn til náms, hvort sem um er að ræða grunnám eða framhaldsnám. Fjölmargir okkar starfsmanna hafa tekið meistaraskólann og farið í iðnfræðinám samhliða störfum sínum hér. Þessi viðurkenning er hvatning til að áfram á sömu braut og segir okkur að við séum á réttri leið.

Til hamingju Elvar!