RAFAL VAR STOFNAÐ 26. NÓVEMBER 1983

Tilgangurinn með stofnun félagsins var að annast hverskonar þjónustu á rafbúnaði rafveitna og þeirra notenda sem kaupa háspennta raforku. Í kjölfarið var gerður þjónustusamningur við Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða um tiltekin verkefni sem Rafal tók að sér að sinna. Megin verkefni Rafals hefur því frá fyrsta degi, verið að sinna uppbyggingu og þjónustu fyrir og við raforkufyrirtækin í landinu. Verkefnin hafa spannað vítt svið, frá störfum línumannsins og inn á fjarskiptasviðið. Þótt megin áhersla hafi verið lögð á að þjónusta orkufyrirtækin hefur Rafal ávallt sinnt allri almennri rafverktöku.

Rafal leggur sérstaka áhersla á rekstrarþjónustu, endurbætur og uppbyggingu háspennu- og lágspennukerfa fyrir raforkuöflun og flutning, raforkudreifingu og raforkuiðnað. Þetta á einnig við um dreifikerfi fjarskiptafyrirtækja.

Í byrjun var Rafal sameignarfélag, sf, stofnað í Búðardal 1983, en árið 1990 var því breytt i hlutafélag, hf, sem seinna með lagabreytingu var kallað einkahlutafélag ehf.

Fyrstu árin var starfsemin rekin í bílskúr og lítilli skrifstofu, en árið 1985 var starfsemin flutt í 165 m2 iðnaðarhúsnæði í Búðardal. Árið 1989 var opnað útibú í Reykjavík með aðsetur í bílskúr í Breiðholtinu. Árið 1994 var starfsemin flutt í bílskúr í Kópavogi eftir að starfstöðin í Búðardal var seld.

Í janúar 2000 flutti Rafal starfsemina í nýtt 420m2 húsnæði að Miðhrauni 22 og starfaði þar til vors 2009 Þann 20. apríl, 2009 hóf Rafal starfsemi í glæsilegu 1.600m2 húsnæði að Hringhellu 9 og hefur auk þess yfir að ráða góðu afgirtu útisvæði. Hér hefur starfsemin náð að vaxa og dafna.

Á starfstímanum hafa skipst á skin og skúrir eins og gengur og ekki var á vísan að róa varðandi verkefni þegar illa áraði. En með aðgát og reglusemi hefur okkur tekist að standa við öll tímamörk varðandi skuldbindingar okkar. Í dag stöndum við sterk og horfum bjartsýn til komandi ára.

Í JÚNÍ 2012 ERU STARFSMENN OKKAR UM 45

Tæknifræðingar, iðnfræðingar, rafvirkjar, rafveituvirkjar, vélvirkjar rafeindavirkjar og sérhæfðir tengingamenn stýringa-, háspennu- og ljósleiðarakerfa. Það eru menn með mikla reynslu og faglega þekkingu á rafveitustörfum. Rafal leggur áherslu á að halda sömu starfsmönnum árum saman og viðhalda hæfni þeirra og þekkingu á háspennubúnaði og umgengni við hann, m.a. til að þeir þekki sín takmörk.

Það er okkar aðferð til að tryggja hámarksöryggi og árangur af starfi hvers og eins.

Kjörorð okkar hefur verið og er

VELJIÐ FAGMENN - VARIST SLYS